Print
Apr
11

Neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis – Verndum íslenska laxfiska

Málþing í Háskólabíó 14. apríl 2016

Fimmtudaginn 14. apríl n.k. verður haldið málþing um neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur. Það eru Landssamband veiðifélaga og Landssamband stangaveiðifélaga sem standa fyrir málþinginu í samstarfi við Angling iQ. Málþingið hefst kl. 16:10 og mun það fara fram í aðalsal Háskólabíós og er aðgangur að málþinginu ókeypis.

Frummælendur koma víða að en þeir eru:

Orri Vigfússon, formaður North Atlantic Salmon Fund, sem berst fyrir verndun laxastofna Norður-Atlantshafsins.

Erlendur Steinar Friðriksson, sjávarútvegsfræðingur og doktorsnemi í fiskifræðum. Erlendur mun fjalla um umfang og áhrif sjókvíaeldis á norskum laxi í Eyjafirði.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar. Erindi hans nefnist Áskoranir í íslensku fiskeldi.

Kjetil Hindar, yfirmaður rannsókna hjá Norsk institutt for naturforskning (NINA). Kjetil mun fjalla um erfða- og vistfræðileg áhrif strokinna eldislaxa á villta laxastofna í Noregi.

Fundarstjóri er Hilmar Bragi Janusson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Málþingið mun fara fram samhliða veiðisýningunni RISE í Háskólabíó fimmtudaginn 14. apríl og mun standa frá kl. 16:10 til kl. 18:30 með hléi.

Allar nánari upplýsingar veitir formaður Landssambands veiðifélaga, Jón Helgi Björnsson.

Sími: 8933778

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Print
Mar
31

Verjum íslenska laxastofna

Yfirlýsing frá Landssambandi veiðifélaga LV og Landssambandi stangaveiðifélaga LS.

Fyrirhugaður er mikill vöxtur í laxeldi á Íslandi á komandi árum. Samtals hefur verið sótt um framleiðsluleyfi á um 100-120 þúsund tonnum af laxi. Gróflega má því áætla að um 50 milljónir frjórra norskra laxa verði á sundi í sjókvíum við strendur Íslands ef af þessum áformum verður. Því miður er það þannig, þrátt fyrir besta búnað og ítarlegar verklagsreglur, þá sleppa laxar úr kvíum. Veiðimálastofnun hefur bent á að samkvæmt norskum rannsóknum megi áætla að það sleppi einn lax úr sjókvíum fyrir hvert framleitt tonn af laxi. Ef fyrrgreindar áætlarnir ganga eftir gætu því um 100-120 þúsund laxar sloppið úr sjókvíum á hverju ári.

Til þess að setja þessar tölur í samhengi þá veiðast að meðaltali um 50.000 villtir laxar á Íslandi árlega. Miðað við algengt veiðihlutfall, sem er um 60%, ganga þá um 83.000 laxar í íslenskar ár á hverju sumri. Hrygningarstofninn er þá um 33-50.000 fiskar. Samkvæmt þessu eru allar líkur á að fleiri frjóir laxar af norskum eldisuppruna sleppi úr sjókvíum á hverju ári heldur en sem nemur stofnstærð íslenska laxastofnsins og um þrefalt fleiri að meðaltali en stærð hrygningarstofnsins. Ekki þarf að fjölyrða um afleiðingar þessa fyrir íslenska laxastofna.

Skýrar sannanir um afleiðingar liggja fyrir

Ný skýrsla Norsk institutt for naturforskning (NINA) sýnir hrollvekjandi afleiðingar af stórfelldu laxeldi fyrir stofna villtra laxa í Noregi. Í nýlegri skýrslu stofnunarinnar kom fram að af 125 stofnum villtra laxa sem voru rannsakaðir var þriðjungur með milda erfðamengun og þriðjungur með alvarlega eða mjög alvarlega erfðamengun. Áhrif erfðablöndunar eru háð hlutfalli innblöndunar en ef um mikla og langvarandi innblöndun er að ræða er hún óafturkræf. Norski eldislaxinn er erfðafræðilega frábrugðinn íslenska laxastofninum, hraðvaxta, verður seint kynþroska og er aðlagaður að eldi en ekki því að þrífast í íslenskri náttúru. Afleiðingin af erfðablöndun verður hnignun og útrýming þeirra villtu stofna sem fyrir eru.

Áætlanir um eldi í Ísafjarðardjúpi

Þrjár ár renna í Ísafjarðardjúp sem skila um 150 - 500 laxa meðalveiði hver. Ætlunin er að framleiða á svæðinu 6800 tonn af laxi á hverju ári. Engar líkur eru á því að þessar ár sem hafa ekki stærri stofna en raun ber vitni þoli nábýli við sjókvíaeldi sem inniheldur 2,8 milljónir eldislaxa. LV hefur bent Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á nauðsyn þess að friða Ísafjarðardjúp fyrir eldi norskra laxa en ráðuneytið sýnir því miður ekki þá umhverfisábyrgð að verða við beiðni sambandsins um friðun.

Ólöglegt er að valda erfðamengun

Íslensk lög kveða á um bann gegn blöndun laxastofna. Óheimilt er með öllu að flytja laxastofna milli veiðivatna og ekki má nota innflutta stofna til fiskræktar. Að okkar mati jafngildir jafn umfangsmikið sjókvíaeldi og nú er fyrirhugað því að sleppa norskum laxi beint í íslenskar laxveiðiár.

Mörg þeirra fyrirtækja sem eru að hasla sér völl í þessum iðnaði hérlendis hafa sótt sér hlutafé til norskra laxeldisfyrirtækja, þeirra sömu og hafa valdið því að ástand villtra laxastofna í Noregi er með þeim hætti að einungis um þriðjungur þeirra eru án erfðamengunar. Hingað sækja þessi fyrirtæki í nánast ókeypis eldisleyfi og nýta sér skilningsleysi opinbera aðila á þeim hættum sem stafa af stórfelldu eldi frjórra norskra laxa. Afleiðingin, ef ekkert er að gert, gæti orðið stórfellt tjón á villtum laxastofnum.

Við viljum með þessari grein hvetja alla þá sem vilja verja íslenskar laxveiðiár að berjast með öllum tiltækum ráðum gegn þessari hættu sem nú steðjar að óspilltum, villtum laxastofnum og einstakri náttúru Íslands.

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga

Viktor Guðmundsson, formaður Landssambands stangaveiðifélaga

Print
Sep
30

Aðalfundur LS 2015

Aðalfundur LS verður haldinn föstudaginn 30. október 2105 kl. 20:00 að Árósum félagsheimili Ármanna Dugguvogi 13, Reykjavík.