Print

Stefnuskrá landssambands stangaveiðifélaga

Landssamband stangaveiðifélaga ver hagsmuni íslenskra stangaveiðimanna og hyggst ná fram markmiðum sínum með því að:

  • Berjast fyrir rétti innlendra veiðimanna til að stunda veiði í ám og vötnum landsins.
  • Beita sér gegn óhóflegri verðlagningu veiðileyfa.
  • Stuðla að náttúruvernd og berjast gegn hvers konar rányrkju á vatnasvæðum landsins.
  • Hvetja til hófsemi í veiði og stuðla að háttsemi í meðferð fengs.
  • Efla samkennd meðal stangaveiðimanna og stuðla að vexti og viðgangi stangaveiðiíþróttarinnar á Íslandi.


Stjórn LS telur að stefni í óefni hvað varðar óhóflega verðlagningu á veiðileyfum hérlendis. Markaðssetning erlendis og aukin sókn útlendinga í vatnasvæði okkar kann að skapa gjaldeyristekjur en verður til þess að Íslendingar sitja á hakanum. Til lengri tíma litið gæti þetta einnig reynst veiðiréttarhöfum hættulegt því útlendingarnir hverfa eins og dögg fyrir sólu ef veiðin bregst.

Netaveiði á laxi þar sem koma má stangveiði við er tímaskekkja sem ætti ekki að þekkjast. LS berst gegn rányrkju á fiskitegundum sem eru í útrýmingarhættu en Atlantshafslaxinn er talinn þeirra á meðal. Þétt mannabyggð meðfram árbökkum getur sömuleiðis valdið mengun á búsvæðum laxfiska og ber að taka tillit til náttúrunnar í þessu samhengi. Virkjanir geta haft áhrif á stofna sjóbleikju, laxa eða annarra tegunda vatnafiska og ber að rannsaka slík áhrif gaumgæfilega áður en ráðist er í framkvæmdir og meta fórnarkostnaðinn.

LS hvetur íslenska veiðimenn til að sýna hófsemi í veiði og fara vel með feng. Fluguveiði á vaxandi vinsældum að fagna hér á landi sem erlendis og aðferðin "veitt og sleppt" sömuleiðis. Stjórn LS telur þetta jákvæða þróun sem sé til þess fallin að bæta umgengni við náttúru Íslands.

Innlendir stangaveiðimenn þurfa að standa saman í baráttunni fyrir hagsmunum sínum. Hér gildir hið fornkveðna: Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.