Print

Lög LS

Lög Landssambands stangaveiðifélaga,
samþykkt með breytingum á aðalfundi 2015


1. gr. Nafn og heimili
Nafn sambandsins er Landssamband stangaveiðifélaga, skammstafað LS.
Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Markmið
Markmið sambandsins eru:
1. Að sameina alla félagsbundna stangaveiðimenn á Íslandi í einum samtökum.
2. Að efla samstarf og gagnkvæman skilning milli íslenskra stangaveiðifélaga.
3. Að standa vörð um sameiginleg hagsmunamál stangaveiðifélaga.
4. Að stuðla að sjálfbærri eflingu fiskistofna í ám, vötnum og við strendur landsins.
5. Að vinna að umhverfisvernd og koma í veg fyrir hvers konar náttúruspjöll við vatn, rányrkju og mengun.
6. Að auka skilning stjórnvalda og almennings á málefnum stangaveiðimanna.
7. Markmiðum sínum hyggst sambandið ná m.a. með því:
- Að vera málsvari stangaveiðifélaga í landinu í sameiginlegum hagsmunamálum þeirra.
- Að vera vettvangur umræðna og skoðanaskipta milli stangaveiðimanna á Íslandi og félaga þeirra.
- Að tryggja aðkomu sambandsins að öllum mikilvægum ákvörðunum, reglugerðum og löggjöf sem varða fiskistofna í ám, vötnum og við strendur landsins.
- Að vinna að endurbótum á lögum og reglum um veiðar í ám, vötnum og við strendur landsins með hagsmuni veiðimanna að leiðarljósi.
- Að stuðla að góðri samvinnu við yfirvöld veiðimála og hlutaðeigandi stofnanir.
- Að efla samstarf stangaveiðifélaga við veiðiréttareigendur og aðra veiðiréttarhafa að sameiginlegum hagsmunamálum.

3. gr. Aðildarfélög
Sambandið er samtök stangafélaga á Íslandi. Íslensk stangaveiðifélög, sem rekin eru á félagslegum grunni, geta sótt um aðild að sambandinu. Aðild nýrra félaga er háð einhuga samþykki stjórnar með fyrirvara um samþykkt aðalfundar. Sé stjórnin ekki sammála, þarf 2/3 atkvæða á aðalfundi til að samþykkja aðild.
Hvert aðildarfélag heldur fullu sjálfstæði sínu og er frjálst að segja sig úr sambandinu.
Ef aðildarfélag brýtur gegn lögum sambandsins eða starfar ekki samkvæmt markmiðum þess skal málið tekið upp á vettvangi stjórnar eða formannaráðs.

4. gr. Fjárhagsleg ábyrgð aðildarfélaga
Aðildarfélög bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sambandsins með öðru en árgjöldum sínum.
Ekkert félag á tilkall til hluta af eignum sambandsins þó að það segi sig úr sambandinu eða sambandinu verði slitið.

5. gr. Árgjöld
Ákveða skal árgjald á aðalfundi. Gjalddagi þess er 1. júní ár hvert.
Aðildarfélög sambandsins greiða árgjald af hverjum skráðum félagsmanni sínum í samræmi við stærð félaganna. Ekkert félag skal þó þurfa að greiða af fleiri félögum en 1000. Aðildarfélög sambandsins skulu fyrir 1. mars ár hvert tilkynna stjórn sambandsins um fjölda félagsmanna sinna.
Gjalddagi árgjalds er 1. júní.
Hafi félag ekki greitt árgjald í tvö ár getur stjórnin, eftir eðlilegar innheimtuaðgerðir, vikið félaginu úr sambandinu.

6. gr. Aðalfundur og stjórn
Aðalfundur hefur æðsta úrskurðarvald í öllum málum sambandsins.
Aðalfundur kýs stjórn sem stýrir sambandinu milli funda og sér um daglegan rekstur.
Allir félagsmenn aðildarfélaga hafa rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt. Einungis tilnefndir fulltrúar fara með atkvæðisrétt hvers félags.

7. gr. Skipan stjórnar
Í stjórn sitja sjö menn, formaður og sex almennir stjórnarmenn, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnendur. Stjórnarmenn eru kjörnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Formann skal kjósa sérstaklega en aðrir stjórnarmenn skipta með sér verkum.
Að öllu forfallalausu skal kjósa þrjá eða fjóra nýja menn í stjórn á hverjum aðalfundi. Allir þeir félagsmenn aðildarfélaga LS sem eru 18 ára og eldri og hafa greitt félagsgjöld sín hjá viðkomandi félagi eru kjörgengir til stjórnarkjörs.
Menn sem gegna launuðum störfum fyrir aðildarfélögin eru ekki kjörgengir til stjórnar.

8. gr. Verkefni stjórnar
Stjórnin fer með mál sambandsins milli aðalfunda og kemur fram fyrir hönd þess.
Stjórnin skal senda eintak af endurskoðuðum ársreikningi og afrit af fundargerð aðalfundar til aðildarfélaga að loknum aðalfundi.
Stjórn skipar fulltrúa sambandsins í opinberar nefndir, ráð eða aðra hópa þar sem óskað er eftir aðkomu íslenskra stangaveiðimanna. Stjórn er heimilt að kveðja sér til aðstoðar einstaka félaga til afmarkaðra verkefna, nefndarstarfa og þess háttar.
Stjórn skal hafa frumkvæði að því að tryggja aðkomu sambandsins að opinberri stefnumótun og setningu laga, reglna eða reglugerða sem með einhverjum hætti snerta stangveiðimenn, áhugamál þeirra, hagsmuni eða stefnu sambandsins.

9. gr. Um formannaráð
Innan sambandsins starfar ráð formanna aðildarfélaganna. Einu sinni á ári eða oftar skal kalla formannaráðið til fundar.
Stjórn og aðalfundur geta falið formannaráði ákveðin verkefni og ráðið sjálft getur tekið upp mál að eigin frumkvæði. Samþykktir ráðsins eru ráðgefandi fyrir stjórn og aðalfund.
Ráðið kýs sér formann sem boðar fundi í samráði við formann sambandsins og stýrir þeim. Formanni er skylt að boða til fundar í ráðinu ef tveir fulltrúar eða fleiri óska þess skriflega.
Formannaráð skal boða til fundar bréflega eða með öðrum tryggum hætti eigi síðar en með viku fyrirvara. Fundur í formannaráði er löglegur ef löglega er til hans boðað.
Ef fulltrúi félags forfallast skal stjórn viðkomandi félags tilnefna annan í hans stað.

10. gr. Boðun aðalfundar
Aðalfundur skal haldinn í október ár hvert.Til fundarins skal boðað skriflega með bréfi eða öðrum tryggum hætti til stjórnar aðildarfélaga með minnst mánaðar fyrirvara.
Aðalfundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður.

11. gr. Verkefni aðalfundar
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og ritara.
2. Fundargerð síðasta aðalfundar.
3. Skýrsla formanns um starfsemi stjórnar, formannaráðs og nefnda
4. Endurskoðaðir reikningar.
5. Lagabreytingar.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga
8. Inntaka nýrra aðildarfélaga
9. Önnur mál
Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir til eins árs ásamt einum til vara.
Við persónukjör hlýtur sá kosningu sem fær flest atkvæði. Falli atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða.
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi, annarra en lagabreytinga en þar þarf 2/3 hluta atkvæða til að lagabreytingar nái fram að ganga. Hafi stjórn ekki verið einhuga um inntöku nýs aðildarfélags þarf 2/3 hluta atkvæða til að samþykkja hana.

12. gr. Atkvæðisréttur á aðalfundi
Aðildarfélög sambandsins hafa atkvæðisrétt á aðalfundi í samræmi við greidd árgjöld.
Fulltrúar aðildarfélags hafa því aðeins atkvæðisrétt að félag þeirra hafi greitt árgjöld sín.
Stjórn ákvarðar fjölda atkvæðisbærra fulltrúa hvers félags á aðalfundi í samræmi við töflu 1 og sendir ákvörðun sína með fundarboði í september ásamt kjörbréfi þar sem fram skulu koma nöfn þeirra fulltrúa sem fara með atkvæði viðkomandi félags. Kjörbréfi skal skilað til stjórnar í upphafi aðalfundar.
Aðildarfélög geta falið einum eða fleiri félagsmönnum sínum að fara með atkvæði félagsins á aðalfundi, þó ekki fleiri en þrjú atkvæði hverjum og skal þeim umboðum skilað í upphafi aðalfundar.
Tafla 1 sýnir hversu mörg atkvæði hvert aðildarfélag hefur á aðalfundi miðað við fjölda félagsmanna.

Tafla 1. Fjöldi atkvæða á aðalfundi miðað við fjölda félagsmanna.

Félagar

Atkvæði

Félagar

Atkvæði

1‑50

1

501‑550

11

51‑100

2

551‑600

12

101‑150

3

601‑650

13

151-200

4

651‑700

14

201‑250

5

701‑750

15

251‑300

6

751‑800

16

301‑350

7

801‑850

17

351‑400

8

851‑900

18

401‑450

9

901‑950

19

451‑500

10

951‑1000

20

 

13. gr. Stjórnarfundir
Formaður kveður stjórn saman til fundar að jafnaði mánaðarlega yfir vetrartímann. Skylt er að halda stjórnarfund ef tveir eða fleiri stjórnarmenn óska þess.
Á stjórnarfundum ræður einfaldur meirihluti ákvörðunum.

14. gr. Aukafundir
Stjórnin kveður til aukafunda í sambandinu þegar henni þykir þörf, eða tvö skuldlaus aðildarfélög óska þess.
Aukafundi skal boða með minnst 10 daga fyrirvara og tilgreina fundarefni í fundarboði.
Á aukafundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða miðað við vægi atkvæða hvers aðildarfélags á aðalfundi. Aukafundur getur vísað málum til formannaráðs til umfjöllunar.
Stjórnin getur boðað til formannaráðsfunda með stjórn sambandsins þegar henni þykir ástæða til. Formannaráð skal boða með viku fyrirvara.

15. gr. Lagabreytingar
Lagabreytingar verða aðeins gerðar á aðalfundi, enda séu tillögur þar um sendar með fundarboði.
Tillögur til lagabreytinga skulu sendar stjórn sambandsins fyrir 1. september. Aðeins verða greidd atkvæði um breytingartillögur sem fylgja fundarboði og breytingartillögur við þær. Lagabreyting nær því aðeins fram að ganga að hún hljóti 2/3 hluta greiddra atkvæða.

16. gr. Úrsögn úr sambandinu
Óski aðildarfélag að segja sig úr sambandinu skal tilkynna það stjórn við fyrsta tækifæri. Aðildarfélög, sem segja sig úr sambandinu, missa sjálfkrafa alla fulltrúa sína í stjórn, formannaráði og öðrum trúnaðarstörfum. Stjórn skal, svo fljótt sem auðið er, boða til aukafundar til að kjósa fulltrúa í þeirra stað ef þörf er á.
Aðildarfélag, sem tilkynnt hefur úrsögn sína, getur ekki sótt neinar eignir eða endurgreiðslur á árgjöldum til sambandsins.

17. gr. Endadægur
Komi fram vilji meirihluta aðildarfélaga eða stjórnar um að sambandið verði lagt niður skal málið tekið fyrir á tveimur aðalfundum til endanlegrar afgreiðslu.
Tillaga um slit sambandsins skal send með fundarboði.
Slitin ná fram að ganga verði þau samþykkt með minnst 2/3 greiddra atkvæða á tveimur aðalfundum í röð.
Síðasti aðalfundur ráðstafar eignum sambandsins.

Samþykkt á aðalfundi Landssambands
Stangaveiðifélaga þann 30. október 2015.